Krossgötur vor 2026
MÁNUDAGA kl. 13.00
Vikulega bjóðum við upp á erindi með kaffiveitingum á Torginu í Neskirkju.
Dagskráin er fjölbreytt og tengist ýmsum sviðum lífs og tilveru.
Janúar
12.
Torfi Tulinus, prófessorTorfi Tulinus, prófessor:
Áföll og kveðskapur í fornsögum: dæmi úr Eyrbyggja sögu.
Áfallafræðum hefur fleytt fram á undanförnum áratugum, m.a. vegna framfara í taugavísindum. Þó hafa menn lengi vitað að voveiflegir atburðir geta sett varanlegt mark á sálarlíf fólks. Konungs skuggsjá lýsir til dæmis ofsahræðslu á vígvelli og áhrifum þess á einstaklinginn. Í spjalli Torfa verður farið í saumana á hinum svokölluðu Máhlíðingamálum sem sagt er frá í Eyrbyggja sögu. Þar kemur til blóðugra átaka milli manna en sagan beinir athyglinni að tveimur persónum: Nagla, sem gripinn er ofsahræðslu og er rétt bjargað frá því að hlaupa fyrir björg, en fyrst og fremst að Þórarni Máhlíðingi. Hann er friðsemdarmaður en bregst reiður við miklum yfirgangi nágranna síns og klýfur hann í herðar niður. Hann er í áfalli yfir eigin hegðun en vísurnar sem hann yrkir eftir á sýna í senn áfallið og hvernig hann vinnur smám saman úr því.
19.
Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor hjá Árnastofnun:
Svo á jörðu sem á himni
Eddurnar og fornsögurnar eru áreiðanlegar heimildir um lifandi hefð á 13. og 14. öld þar sem heimsmynd og hvers kyns hugmyndum og þekkingu var miðlað með frásagnarlist í lausu máli og bundnu án þess að ritun kæmi við sögu. Sögur voru um staði og farleiðir sem sögupersónur fóru um og tengdust hver annarri með ýmsum hætti – og inn í aðrar sögur sem áheyrendur hafa þekkt til. Umhverfið, svo á jörðu sem á himni, kallaði á sögur af einstaklingum af þessum heimi eða úr veröld hetja, goða og vætta, og skýringar á því hvernig þeir tengdust í gegnum ættir, ástir og örlög. Þannig varð til stöðugt samspil þess sem lifandi fólk hafði fyrir augunum og þeirra persóna og atburða sem það gat sótt í þennan gagnvirka minnislykil sagnalistarinnar. Þær sögur og kvæði lögðu grunninn að hinum rituðu textum sem við köllum eddur og fornsögur og getum lesið á bókum. Með því að lesa fornbókmenntirnar undir þessu sjónarhorni opnast leið til að skilja þær sem hluta af lifandi þekkingarkerfi sem á sér djúpar rætur langt aftur fyrir þá menntun og lærdómshefð sem hingað barst frá meginlandinu og kveikti þá hugmynd að hægt væri að skrifa eitthvað af þeirri þekkingu á bók. Til dæmis verður Eddan kennd við Snorra mjög áreiðanleg heimild í þessu ljósi um það hvernig ungum skáldum á 13. öld var kennt að tengja sögur af goðum við himininn þar sem þær voru sviðsettar fyrir allra augum í heita pottinum í Reykholti – óháð því hvað segja má um trúarbrögð á Norðurlöndum fyrir kristni með þá sömu Eddu sem heimild.
26.
Þórunn Sigurðardóttir, prófessor emerita:
„Ég elskaði, ég missti mitt elskulegasta barn“
Um ástvinamissi á árnýöld
Viðbrögð við ástvinamissi eru talin mótast af sögulegum og menningarlegum þáttum. Í hverju samfélagi eru venjur og viðmið sem ákvarða hvernig skuli bregðast við andláti og missi, bæði opinberlega og í einkalífi. Á 17. öld var lögð áhersla á að syrgjendur stilltu sorgarviðbrögðum sínum í hóf og létu huggast í von um að hitta hinn látna ástvin á himnum. Raunar áttu syrgjendur að fagna því að hinn látni væri nú hólpinn í faðmi lausnarans, eins og fram kemur í ýmsum huggunarbókmenntum frá þessum tíma. Í fyrirlestrinum ætla ég að sýna fram á ákveðna togstreitu á milli hefðbundinnar huggunar vegna ástvinamissis og hinnar djúpu sorgar sem heltekur foreldra sem missa afkomanda sinn sem birtist í tveimur harmljóðum frá árnýöld. Annað kvæðið orti sr. Stefán Ólafsson í Vallanesi eftir bróðurson sinn og setur í orðastað föður unga mannsins. Hitt harmljóðið orti Brynjólfur Þórðarson Thorlacius eftir son sinn Skúla.
Febúar
2.
Katelin Parsons
Kveðið í Vesturheimi: íslenskar rímur og rímnaskáld í Norður-Ameríku
Rímnaskáld og kvæðamenn voru meðal þeirra fjöldamörgu Íslendinga sem ákváðu að freista gæfunnar og fara vestur á síðustu áratugum nítjándu aldar og fyrstu árum þeirrar tuttugustu. Upptökur frá apríl 1940 af Sigurði Bárðarsyni hómopata (1851–1940) að kveða rímur á elliheimili í Kalifórníu fyrir tónlistarfræðinginn og þjóðlagasafnarann Sidney Robertson Cowell sýna að rímnahefðin lifði enn góðu lífi meðal innflytjenda. Tugir rímnahandrita finnast í Norður-Ameríku en einnig eru til dæmi um rímur eftir vesturfara sem hafa hvergi fundust. Í þessu erindi er grennslast fyrir um afdrif rímna og rímnaskálda vestan hafs.
9.
Einar Einarsson:
Jón biskup Arason í skrifum þjóðernissinna á 20. öld
Söguskoðun Íslendinga tók stakkaskiptum um miðja nítjándu öld. Túlkun ýmissa lykilþátta Íslandssögunnar á borð við gamla sáttmála (1262), siðaskiptin (1550) og Kópavogsfundinn (1662) breyttist frá því að vera hlutlaus eða fremur jákvæð yfir í það að vera þrungin neikvæðri merkingu. Í söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar voru siðaskiptin túlkuð sem upphaf útlendrar kúgunar og þar með þjóðlegrar niðurlægingar Íslendinga. Jón Arason Hólabiskup reyndi hvað hann gat til að veita konungsvaldinu viðnám á meðan siðaskiptunum stóð og var fyrir það gerður að eins konar þjóðardýrlingi u.þ.b. þremur öldum eftir að hann og synir hans voru teknir af lífi í Skálholti í nóvember 1550. Í erindinu verður fjallað um hvernig og af hverju viðhorfið til baráttu Jóns Arasonar og sona hans gegn siðbreytingunni umpólaðist í íslenskri sagnaritun frá Arngrími lærða til Jóns Jónssonar Aðils og Páls Eggerts Ólasonar.
16.
Gunnar Jóhannes Gunnarsson, prófessor emeritus
Sumarbúðir í Vatnaskógi í 100 ár
Sumarbúðir KFUM í Vatnaskógi urðu 100 ára árið 2023. Af því tilefni var gefið út veglegt afmælisrit þar sem saga og uppbygging starfsins er rakin í máli og myndum. Í erindinu verður fjallað um þróun sumarbúðanna í þessi 100 ár, frá því að vera tjaldútilega í nokkrar vikur á sumri, yfir í að vera öflug æskulýðsmiðtöð sem starfar árið um kring. Áhrif sjálfboðaliða, uppbygging aðstöðunnar og fjölbreytileiki starfsins verða meðal annars í brennidepli ásamt myndefni úr afmælisritinu.